Enski boltinn

Wenger vill styðjast við marklínutækni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wenger er oft líflegur á hliðarlínunni í leikjum Arsenal.
Wenger er oft líflegur á hliðarlínunni í leikjum Arsenal. Nordic Photos/AFP
Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal hefur bæst í hóp þeirra sem vilja styðjast við marklínutækni í knattspyrnu. Forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa lýst því yfir að mögulega verði marklínutækni tekin í notkun tímabilið 2012-2013.

„Maður vill fá marklínutækni til þess að auka líkurnar á því að réttar ákvarðanir séu teknar,“ segir Wenger á heimasíðu Arsenal. Alþjóða knattspyrnusambandið var mótfallið tækninni þar til á HM 2010 þegar löglegt mark var tekið af Frank Lampard miðjumanni Englendinga í 16-liða úrslitum gegn Þjóðverjum.

„Það myndi hjálpa dómurum. Því meiri aðstoð sem þeir fá, því fleiri ákvarðanir þeirra verða réttar. Ef þú getur aukið hlutfall réttra ákvarðana úr 85% í 95% með notkun tækninnar þá verðurðu að styðjast við hana,“ sagði Wenger.

Wenger, sem er menntaður hag- og verkfræðingur, hefur þjálfað Arsenal frá árinu 1996.

„Ég er ánægður með að geta notað tæknina til þess að fækka mistökum. Ég myndi reyndar vilja styðjast enn frekar við tæknina en það er ágætt að byrja á marklínutækninni,“ sagði Wenger.

Fyrsti leikur Arsenal í ensku úrvalsdeildinni er gegn Newcastle þann 13. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×