Innlent

Misþyrmdi fyrrum unnustu

Í síðara skiptið réðst maðurinn á konuna framan við Suðurhlíðarskóla.
Í síðara skiptið réðst maðurinn á konuna framan við Suðurhlíðarskóla.
Ríkissaksóknari hefur ákært rúmlega fimmtugan mann fyrir að ráðast með hrottafengnum hætti á fyrrum unnustu sína og misþyrma henni.

Manninum er gefið að sök að hafa á heimili sínu í maí árið 2009 veist með ofbeldi að konunni, hrint henni á rúm, sest ofan á hana og slegið og sparkað í hana. Konan fékk glóðarauga, svo og eymsli og mar í andliti og á líkama.

Í júní réðst maðurinn aftur á konuna, í það skiptið við Suðurhlíð framan við Suðurhlíðarskóla. Hann reif í hár hennar, settist klofvega ofan á hana og sló hana nokkrum sinnum með krepptum hnefa í andlitið. Að auki tók hann hana hálstaki.

Af þessum misþyrmingum fékk konan glóðarauga og mikið mar víða í andliti. Þá var hún hrufluð á hálsi og með bólgna vör.

Konan gerir kröfu um að maðurinn verði dæmdur til að greiða henni þrjár milljónir króna í miskabætur.

Ákæruvaldið krefst þess að hann verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×