Innlent

Ákvörðun um áfrýjun bíður enn

Steinunn Guðbjartsdóttir
Steinunn Guðbjartsdóttir
Slitastjórn Glitnis hefur enn ekki ákveðið hvort frávísunarúrskurði dómarans Charles Ramos í Glitnismálinu í New York verði áfrýjað. Slitastjórnin fær að líkindum eins mánaðar áfrýjunarfrest eftir að skriflegur úrskurður liggur fyrir en sá úrskurður er hins vegar enn ekki tilbúinn.

Ramos vísaði málinu frá dómi um miðjan desember með þeim orðum að með réttu ætti að höfða það á Íslandi. Hann setti það hins vegar sem skilyrði fyrir frávísuninni að stefndu féllust á að íslenskir dómstólar hefðu lögsögu í málinu og að eignir þeirra í útlöndum yrðu aðfararhæfar ef þeir töpuðu því.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnarinnar, segir að tafirnar á útgáfu skriflegs úrskurðar skýrist af því að nú vinni dómarinn að því að útfæra skilyrðin með formlegum hætti. Við þá vinnu sé haft samráð við lögmenn bæði slitastjórnarinnar og stefndu.

Í málinu stefndi slitastjórnin þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni, Jóni Sigurðssyni og Þorsteini M. Jónssyni til greiðslu tveggja milljarða dala fyrir að hafa rænt bankann að innan.- sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×