Viðskipti innlent

Tvö félög Kalla í Pelsinum eru gjaldþrota

Félögin Eignamiðjan ehf. og Kirkjuhvoll ehf., sem nú heitir Eignarhaldsfélagið Vindasúlur ehf., voru tekin til gjaldþrotaskipta í janúar. Félögin voru í eigu Karls Steingrímssonar, sem gjarnan er kenndur við Pelsinn, auk Ester Ólafsdóttur, sem átti helmingshlut í Kirkjuhvol samkvæmt ársreikningi félagsins árið 2008.

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Þar segir að Kirkjuhvol hafi ekki skilað inn ársreikningum fyrir árin 2009 og 2010.

Félögin tvö halda um fasteignir bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Eignir Eignamiðjunnar eru íbúðablokk og verslunarhúsnæði að Tryggvagötu 18 í miðbæ Reykjavíkur og fasteign að Fiskislóð 74. Ístak byggði húsið í Tryggvagötu og var framkvæmdum að mestu lokið 2008.

Óhætt er að segja að húsið sé hið glæsilegasta, íbúðir þar eru nánast að fullu innréttaðar og búa yfir öllum munaði. Fasteignin hefur verið til sölu en hugmyndir voru uppi um að reka þar hótel. Byggingin hefur staðið tóm frá því að framkvæmdum lauk.

Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2009 voru skuldir Eignamiðjunnar 1,6 milljarðar króna. Arion banki og Stafir lífeyrissjóður eru veðkröfuhafar fasteignarinnar og nema veðréttir um 1300 milljónum króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Óvíst er hvert virði fasteignarinnar er í dag, að því er segir í Viðskiptablaðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×