Innlent

Fjórði hver hefur tekið út lífeyrissparnað

Landsmenn hafa nýtt tímabundna heimild til að taka út séreignarsparnað til að taka 54,8 milljarða króna út úr lífeyriskerfinu, samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Alls hafa rúmlega 54 þúsund manns nýtt sér þetta úrræði, um fjórðungur fólks á aldrinum 18 til 67 ára.

Stjórnvöld opnuðu tímabundið fyrir þann möguleika að taka út séreignarsparnað til að bregðast við erfiðu efnahagsástandi í kreppunni. Frestur til að sækja um heimild til að taka út lífeyri rennur út um næstu mánaðamót. Þeir sem ætla að nýta sér úrræðið verða að sækja um fyrir föstudag.

Frá því heimilað var að taka út sparnaðinn snemma árs 2009 hefur hver af hinum 54 þúsund landsmönnum sem hafa nýtt sér heimildina tekið út að meðaltali ríflega eina milljón króna hver.

Þegar úrræðið var kynnt árið 2009 var heimilt að taka út allt að milljón. Sú upphæð hækkaði síðar í 2,5 milljónir, og svo aftur í 5 milljónir króna. Sumir hafa því sótt um oftar en einu sinni, alls hafa rúmlega 93 þúsund umsóknir verið samþykktar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×