Viðskipti erlent

Dönsk vélmenni þramma suður

Danska fyrirtækið Universal Robots í Óðinsvéum, sem framleiðir m.a. iðnaðarvélmenni fyrir bílaiðnaðinn, mun þrefalda framleiðslu sína í ár.

Þetta kemur fram í Berlingske Tidende. Þar segir að Universal Robots hafi náð miklum árangri í Þýskalandi og nú nota margir helstu bílaframleiðendur þar í landi vélmenni frá danska fyrirtækinu. Vélmennin eru í notkun við að framleiða bíla hjá VW, BMW og Daimler.

Universal Robots byrjaði sem sprotafyrirtæki árið 2003 með fjárframlagi frá Syddansk Innovation. Árið 2008 ákváðu Syddansk Innovation og ríkisrekni fjárfestingarsjóðurinn Vækstfonden ásamt stjórn fyrirtækisins að fjárfesta fyrir 10 milljónir danskra kr. í Universal Robots.

Thomas Visti sölustjóri Universal Robots segir að þeir séu nú komnir með 60 sölumenn í 17 löndum en þarf af eru um 20 sölumenn í Þýskalandi. Visti segir að þeir muni bæta mönnum við söludeild sína á næstu mánuðum sökum aukinnar eftirspurnar eftir vélmennum fyrirtækisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×