Fréttablaðið greindi frá þessu allsérstaka máli á laugardaginn en skáldkonan var ekki par sátt við að RÚV hygðist nefna nýjan sjónvarpsþátt þessu nafni en frægur bókaflokkur Sandemo heitir einmitt Ísfólkið.
„Ég er bara mjög ánægð að RÚV skuli hafa hlustað á okkar málstað og tekið athugasemdir okkar til greina. Þetta er bara mjög flott og fínt nafn og passar þættinum betur," segir Sigrún Halldórsdóttir, útgefandi Sandemo.
„Við ákváðum að fara þessa leið og ég vona svo sannarlega að enginn eigi einkaleyfi á Ísþjóðinni," segir Ragnhildur Steinunn. Hún segist hafa fengið frjálsar hendur frá Ríkisútvarpinu og raunar sjálfdæmi í málinu og hún hafi ákveðið að láta hagsmuni þáttarins ráða för.

Í gær var síðan unnið hörðum höndum að því að breyta öllu kynningarefni þáttanna og „lógói".
„Þetta er án nokkurs vafa með því áhugaverðasta sem ég hef lent í á mínum sjónvarpsferli, þetta mun seint gleymast."- fgg