Innlent

Sló heimsmet í kappróðri undir íslenskum fána

Siglingakappinn og listamaðurinn Fiann Paul setti nýverið tvö heimsmet í kappróðri þegar hann reri undir íslenskum fána yfir Atlantshafið.

Sex manna áhöfn Fiann Paul ýtti úr vör í Marókkó í Afríku þann 5. janúar. 3100 mílum og rúmum mánuði síðar náði áhöfnin takmarki sínu. Atlantshafið var sigrað og tvö heimsmet í kappróðri sett. Fiann Paul býr og starfar á Íslandi og segist stoltur af því að hafa skráð nafn Íslands í sögubækurnar.

„Ég sigli undir íslenskum fána og því tilheyra þessi heimsmet Íslandi. Ég hef kannað málið og þetta eru ein af fáum, jafnvel þau einu heimsmet, sem tilheyra Íslandi og mig grunar að þau verði ekki slegin í bráð," segir Fiann Paul á von á íslenskum ríkisborgarétti á næstunni.

Ferðin kostaði gríðarlegt úthald og orku. Eftir langt og strangt undirbúningstímabil tók sannkölluð þrekraun við. Róið var á 12 tíma vöktum. Sofið tvo tíma og róið í tvo tíma. Fiann segist hafa misst um 20% líkamsmassans í ferðinni.

„Það er eins og þú búir á vatninu. Stundum ná öldurnar fimm metra hæð sem er mikið sjónarspil og ævintýri. En þegar maður sefur þarf maður að loka sig vel af til að vatnið flæði ekki yfir mann."

Fiann Paul er ekki aðeins þekktur fyrir afrek sín á hafi úti. Hann hefur klifið fjöll í félagi við Sherpa, kennt fjallalögreglunni í Lakdah sjálfsvarnaríþróttir og tekið ljósmyndir í himalæjafjöllunum. Hann er listamaður og margir muna eflaust eftir myndum hans af börnum á lækjartorgi.

„Að sigla er líka list," segir siglingakappinn Fiann Paul.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×