Erlent

Leyndardómurinn um svefngöngu leystur?

Vísindamenn telja sig hafa fundið breytingu í litningi sem skýrir þá undarlegu hegðun sumra að ganga í svefni.

Greint er frá niðurstöðunum í tímaritinu Neurology en vísindamennirnir segjast hafa fundið breytingu í litningi númer 20 sem skýri fyrirbærið. Vísindamennirnir rannsökuðu fjölskyldu þar sem svefnganga hefur verið algeng í fjóra ættliði og fundu út að svefngenglarnir voru allir með sama frávikið.

Nú segjast þeir ætla að einangra genin sem koma við sögu og mögulega verður hægt að finna lækningu við kvillanum, sem hrjáir allt að tíu prósent allra barna og einn af hverjum fimmtíu á meðal fullorðinna. Yfirleitt er svefnganga léttvægt vandamál sem eldist af fólki, en í sumum tilfellum er þetta alvarlegri sjúkdómur sem getur eðli málsins samkvæmt jafnvel verið stórhættulegur, sérstaklega þegar fullorðnir eiga í hlut.

Til eru dæmi um svefngengla sem rísa upp við dogg, finna bíllykilinn og fá sér ökuferð, oft með alvarlegum afleiðingum. Þá eru þekkt dæmi um einstaklinga sem hafa framið morð í svefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×