Viðskipti erlent

Kaupþing eignast aflandsfélög Tchenguiz bróður

Flókið net aflandsfélaga sem Vincent bróðir Róbert Tchenguiz stofnaði á sínum tíma undir fasteignaverkefni sín í Bretlandi er komið í hendur skilanefndar Kaupþings. Verðmæti hluta í þessum félögum var metið á 220 milljónir punda eða rúmlega 41 milljarður kr. fyrir tveimur árum.

The Guardian fjallar um málið í dag en þegar segir að Vincent hafi lagt þessi aflandsfélög að veði Þegar hann reyndi, illu heilli eins og það er orðað, að koma í veg fyrir veðkall Kaupþings á 1,8 milljarða punda lánum til Roberts bróður síns. Fjallað var um það mál á vísir.is nýlega.

Í blaðinu kemur fram að undirliggjandi eignir í þessum aflandsfélögum séu hugsanlega margra milljarða punda virði. Eignirnar eru á Bretlandseyjum og telja m.a. þúsundir af McCarthy & Stone elliheimilaíbúðum, nokkra lúxusíbúðakjarna meðfram Thames ánni og Putney Warf turninn.

Í umfjöllun Guardian er vitnað í réttarskjöl í máli því sem fjölskyldusjóður þeirra Tchenguiz bræðra hefur höfðað gegn Kaupþingi. Samkvæmt þeim skjölum er um að ræða 14 eignarhaldsfélög á Jómfrúreyjum og fjögur önnur félög á Bretlandseyjum sem Kaupþing hefur leyst til sín.

Róbert Tchenguiz var á sama tíma einn stærsti viðskiptavinur Kaupþings misserin fyrir hrun og stjórnarmaður í stærsta hluthafa bankans, Exista.






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×