Lífið

Ryan Gosling í hörkustuði

Hasar- og spennumyndin Drive eftir danska leikstjórann Nicolas Winding Refn verður frumsýnd í Sambíóunum um helgina. Refn fékk gullpálmann í Cannes fyrir bestu leikstjórn en myndin hefur fengið mjög góða dóma og vilja margir meina að þetta sé hreinlega besta bíómynd ársins.

Myndin fær 8,8 á imdb.com og 94 prósent gagnrýnenda hafa gefið henni jákvæða dóma samkvæmt vefsíðunni rottentomatoes. Ryan Gosling leikur Driver, ökuþór sem sinnir áhættuakstri í Hollywood-myndum á daginn en sér um flótta fyrir skipulagða glæpastarfsemi á kvöldin. Hann fellur fyrir hinni ólánsömu Irene sem leikin er af Carey Mulligan en samband þeirra tekur óvænta stefnu þegar innbrot eiginmanns hennar fer úr skorðum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Af öðrum myndum sem verða frumsýndar um helgina má nefna I Don't Know How She Does This með Sarah Jessica Parker í aðalhlutverki. Hún segir frá tveggja barna móður og eiginkonu sem er fyrirvinna heimilisins. Með önnur hlutverk í myndinni fara þeir Greg Kinnear og Pierce Brosnan. Og loks er það Warrior, mynd sem hefur fengið lofsamlega dóma. Hún skartar Tom Hardy í aðalhlutverki og segir frá tveimur bræðrum sem berjast í MMA-keppni. Meðal annarra leikara í myndinni má nefna Nick Nolte og Joel Edgerton.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.