Erlent

Ósáttur við að íslenska konan fái allt verðlaunaféð í Bulger málinu

Mynd/AP

Maður einn í Las Vegas í Bandaríkjunum er afar ósáttur við FBI, bandarísku alríkislögregluna, fyrir að greiða íslenskri konu alla upphæðina sem sett var til höfuð James "Whitey" Bulger. Bulger þessi var á toppi listans yfir eftirlýsta menn í Bandaríkjunum og var hann handtekinn í júní síðastliðnum eftir að ónefnd íslensk kona hafði bent yfirvöldum á að hann byggi sennilega í Santa Monica í Kalíforníu. Íslenska konan hafði búið áður í sama húsi og Bulger og þegar hún sá mynd af honum í fjölmiðlum lét hún vita. Fyrir vikið varð hún tveimur milljónum dollara ríkari en það nemur rúmum 230 milljónum króna.

Keith Messina segist hinsvegar í samtali við Boston Herald vera frekar skúffaður. Hann hafi séð Bulger á ströndinni í Santa Monica árið 2008 og látið yfirvöld strax vita. Ekkert hafi hinsvegar verið gert í málinu. Hann hafi því haft samband á dögunum og spurt hvort hann ætti ekki rétt á hluta verðlaunafésins og fengið þau svör að íslenska konan hafi fengið það allt.

„Ég er frekar pirraður,“ segir Messina. „Ég vann alla vinnuna fyrir þá og þeir ákveða bara að borga einhverri konu frá Íslandi allan peninginn. Lögreglan er að fela eitthvað,“ segir hann, viss í sinni sök.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×