Handbolti

Guðmundur Hólmar: Þetta er búið að vera skrautlegt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur Hólmar þegar hann fékk rauða spjaldið í síðasta leik. Mynd/Sævar
Guðmundur Hólmar þegar hann fékk rauða spjaldið í síðasta leik. Mynd/Sævar
Guðmundur Hólmar Helgason, leikmaður Akureyrar, hefur mikið verið í umræðunni eftir fyrsta leik Akureyrar og FH. Guðmundur fékk að líta rauða spjaldið í leiknum en slapp við bann þar sem dómarar leiksins skiluðu ekki inn agaskýrslu eftir leik. Við það var formaður dómaranefndar HSÍ ósáttur.

Guðmundur getur því leikið með sínu liði í kvöld í leiknum mikilvæga sem Akureyri verður að vinna.

"Þetta er búið að vera skrautlegt en ég hef reynt að leiða umræðuna fram hjá mér," sagði Guðmundur Hólmar við Vísi í dag.

"Það er í raun ekki fyrr en hann er búinn með skrefin sem brotið verður gróft. Þá lendi ég aftan á honum við förum niður. Þetta hefði klárlega átt að vera 2 mínútur en ég veit ekki með rautt. Anton og Hlynur eru bestu dómarar landsins, hafa dæmt vel og ég ætla ekkert að deila við þá."

Dómarar leiksins í kvöld eru þeir Gísli Hlynur Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson.  Guðmundur óttast ekkert að vera á einhverju skilorði.

"Ég hef ekki trú á öðru en að ég fái að spila minn leik. Ég var ekki nógu góður í síðasta leik og stefni á að gera betur í kvöld. Við verðum að vinna. Við höfum áður unnið í Krikanum og ættum að geta gert það aftur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×