Viðskipti erlent

Danskur tóbaksrisi í milljarðakaupum vestan hafs

Danski tóbaksrisinn Skandinavisk Tobakskompagni (STG) hefur keypt Lane Ltd. eitt af dótturfélögum Reynolds í Bandaríkjunum fyrir rúmlega 200 milljónir dollara eða um 23 milljarða kr. Með kaupunum verður STG leiðandi fyrirtæki í framleiðslu á vindlum, smávindlum og píputóbaki í Bandaríkjunum.

STG framleiðir m.a. smávindlana Café Créme og píputóbakið Sweet Dublin. Í frétt um málið í Berlingske Tidende segir að með kaupunum á Lane muni framleiðsla STG aukast um 525 tonn af píputóbaki, 980 tonn af rúllutóbaki og 450 milljónir smávindla árlega.

Meðal þess sem Lane framleiðir er Captain Black píputóbak og Winchester smávindlar. Hjá fyrirtækinu starfa um 110 starfsmenn. Með kaupunum er starfsmannafjöldi STG orðinn um 10.000 manns á heimsvísu.

Eftir kaupin verður árleg velta STG um 800 milljónir evra. Ársframleiðslan á vindlum nemur 2,5 milljörðum stykkja, á píputóbaki 2.175 tonnum og á rúllutóbaki 3.170 tonnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×