Lífið

Baggalútur gefur út bók

Bragi Valdimar Skúlason og félagar gefa út samhverfubók fyrir jólin.
Bragi Valdimar Skúlason og félagar gefa út samhverfubók fyrir jólin.
Grallararnir í Baggalúti ætla að gefa út samhverfubók fyrir jólin sem hefur fengið vinnuheitið 33 samhverfur.

„Við ætlum að fagna tíu ára afmæli Baggalúts með því að gefa út svokölluð lærdómsrit Baggalúts. Þetta verða litlar bækur og fyrsta afurðin verður að öllum líkindum þessi samhverfubók," segir Bragi Valdimar Skúlason Baggalútur. „Við höfum safnað þeim frá upphafi og meira að segja lengur. Það hafa margir góðir samhverfusmiðir fundið og sent okkur samhverfur um árin."

Um er að ræða orð og setningar sem hægt er að lesa jafnt aftur á bak sem áfram. Dæmi um þetta eru Írakabakarí, Addi kallar alla Kidda og ABBA párar á pabba. Bobby Breiðholt, sem hefur hannað mörg plötuumslög í gegnum tíðina, annast myndskreytingar í bókinni. Að sögn Braga Valdimars mun lærður málfræðingur skrifa innganginn.

Baggalútsmenn hafa gefið út eina bók á tíu ára ferli sínum. Hún heitir Sannleikurinn um Ísland og kom út árið 2004. „Við höfum alltaf titlað okkur Útgáfufélag Baggalúts þannig að nú verðum við að drullast til að gefa eitthvað út," segir Bragi léttur. „Svo er spurning, því við erum svo rafrænir, hvort þetta verði ekki spjaldtölvuvædd útgáfa. Við höfum lengi verið yfirlýstir pappírshatarar."

Baggalútur ætlar einnig að gefa út afmælisplötu fyrir jólin. Þar verða lög sem hafa hrannast upp hjá þeim í gegnum tíðina, þar á meðal Áfram Ísland og lag sem þeir gáfu Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, þegar hún varð áttræð. Jólatónleikar í Háskólabíói og í menningarhúsinu Hofi verða haldnir í desember og eru miðar á þá í þann mund að klárast. „Við ætluðum að vera á undan IKEA. Það kom í ljós að fólk er í fínu jólaskapi í byrjun september."

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.