Erlent

Fleiri steinar í götu viðræðna

Byggingaframkvæmdir Landtökumenn hafa staðið í stórframkvæmdum í Austur-Jerúsalem og fá nú að byggja enn meira.nordicphotos/AFP
Byggingaframkvæmdir Landtökumenn hafa staðið í stórframkvæmdum í Austur-Jerúsalem og fá nú að byggja enn meira.nordicphotos/AFP
Ísraelsk stjórnvöld gáfu í gær út heimild til þess að reisa 1.100 nýjar íbúðir í austurhluta Jerúsalem, borgarhluta sem Ísraelar hertóku árið 1967. Palestínumenn gera tilkall til austurhluta borgarinnar og hyggjast hafa þar höfuðborg sína.

Saeeb Erekat, helsti samningamaður Palestínumanna, fordæmdi þessa ákvörðun þegar í stað og sagði hana fela í sér þvert nei við því að friðarviðræður verði teknar upp á ný.

Ísraelar hafa brugðist við umsókn Palestínumanna um að sjálfstætt Palestínuríki fái aðild að Sameinuðu þjóðunum með því að bjóðast til að taka þátt í friðarviðræðum. Bandaríkjastjórn hefur sömuleiðis hvatt Ísraela og Palestínumenn til að hefja samningaviðræður á ný.

Palestínumenn hafa hins vegar ítrekað neitað að halda áfram viðræðum meðan Ísraelar halda áfram byggingaframkvæmdum á herteknu svæðunum.

Catherine Ashton, utanríkismálafulltrúi Evrópusambandsins, segir að byggingarleyfin eigi að afturkalla, enda komi þau í veg fyrir frekari friðarviðræður Ísraela og Palestínumanna.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×