Innlent

Ávinningur af útboði ólíklegur

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.
„Fyrirtæki sem eru umboðsaðilar á Íslandi fyrir búnað til lögreglustarfa eiga það flest sameiginlegt að tengjast starfandi eða fyrrverandi lögreglumönnum með beinum eða óbeinum hætti,“ segir í yfirlýsingu frá Ríkislögreglustjóra. Lög banni ekki stofnunum ríkisins að eiga viðskipti við fyrirtæki í eigu lögreglumanna eða tengdra aðila.

Að sögn Ríkislögreglustjóra var hluti innkaupa löggæslustofnana árin 2008 til 2011 vegna búnaðar sem getið er í vopnalögum. „Sérstakt leyfi ríkislögreglustjóra þarf til þess að flytja handjárn, kylfur og annan valdbeitingarbúnað til landsins og er búnaðurinn einungis heimill til löggæslustarfa. Ríkislögreglustjóri hefur tæmandi yfirlit yfir hverjir hafa slíka heimild og var leitað eftir tilboðum frá þeim aðilum,“ segir í yfirlýsingunni.

Af 7,8 milljóna króna viðskiptum við félagið Landsstjörnuna sem Ríkisendurskoðun gerir athugasemd við segir Ríkislögreglustjóri að 4,7 milljónir hafi verið vegna kaupa á ákveðnum tegundum lögreglukylfa. „Vandséð er að samkeppnismarkaður sé til staðar fyrir þær tegundir af kylfum sem lögreglan hefur heimild til notkunar. Því er ólíklegt að útboð hefði leitt til betri niðurstöðu.“

Þá segist Ríkislögreglustjóri ekki gera ágreining um að allar vörurnar í þrennum viðskiptum við félagið Trademark ehf. hafi verið lögregluvörur. Það sé hins vegar áréttað „að um þrenn innkaup hafi verið að ræða á ólíkum vörum sem eiga það eitt sameiginlegt að vera til löggæslustarfa“.

Ríkislögreglustjóri bendir á að lögum samkvæmt sé stofnunum ríkisins ekki óheimilt að eiga viðskipti við fyrirtæki í eigu lögreglumanna eða tengdra aðila.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×