Lífið

Baggalút mest skilað eftir jól

Nýjustu plötu Baggalúts var mest skilað eftir jól, sem telst vera eðlilegt enda seldist hún best fyrir jólin.
Nýjustu plötu Baggalúts var mest skilað eftir jól, sem telst vera eðlilegt enda seldist hún best fyrir jólin.
Plötunni Næstu jól með Baggalút var mest skilað eftir nýafstaðna jólatörn hjá Senu, stærsta útgáfufyrirtæki landsins. Platan varð sú næstsöluhæsta á síðasta ári og seldist í 8.100 eintökum fyrir jól, þrátt fyrir að hafa verið ófáanleg í nokkra daga vegna óveðursins í Bretlandi.

Að sögn Eiðs Arnarssonar, útgáfustjóra Senu, er það nánast alltaf svo að sú plata sem selst mest fyrir jólin er sú sem er mest skilað. „Þetta nánast liggur alltaf í hlutarins eðli,“ segir Eiður. Skil á plötum snúast aðallega um þau eintök sem fara í verslanir og seljast ekki og er því skilað aftur til útgefandans.

Söluhæsta plata síðasta árs, Þú komst í hlaðið, með Helga Björnssyni og Reiðmönnum vindanna kom hvergi við sögu í skilunum enda kom hún út síðasta sumar. Alls seldist hún í rúmum 11.500 eintökum, auk þess sem síðasta hestaplata Helga, Ríðum sem fjandinn, seldist í um 1.300 eintökum þrátt fyrir að hafa komið út sumarið 2009.

Alltaf er eitthvað um að plötur seljist minna en búist var við af framleiðanda og sú varð meðal annars raunin með safnplötu Kristjáns Jóhannssonar. Hún seldist í um sjö til átta hundruð eintökum en búist var við á annað þúsund eintaka sölu fyrir jólin. „Þetta er vissulega minna en við áttum von á,“ segir Eiður og bætir við að skilin á henni hafi verið hlutfallslega há. Sú plata á samt vafalítið eftir að seljast áfram næstu árin, enda eigu­legur gripur þar á ferð.

Ef rýnt er nánar í sölutölur Senu kemur í ljós að fyrsta plata popparans Friðriks Dórs seldist rúmlega hundrað eintökum betur en nýjasta plata Sálarinnar, sem fór í rúmum 1.800 eintökum. Hljóta það að teljast vonbrigði þar á bæ. Einnig vekur athygli að plata Diktu, Get It Together, sem kom út fyrir þarsíðustu jól, seldist í um 6.300 eintökum á síðasta ári og varð sú þriðja söluhæsta hjá Senu.

- fb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.