Innlent

Hafna ósk ríkisstjórnarinnar um friðlýsingu Gjástykkis

Sveitarfélögin þrjú, sem Gjástykki er í, hafna öll ósk ríkisstjórnarinnar um algera friðlýsingu. Oddviti Mývetninga kveðst ekki hafa orðið var við að heimamenn vilji friðlýsa svæðið.

Mývetningar sýndu það fyrir rétt rúmum 40 árum að þeir taka umhverfisvernd alvarlega þegar þeir sprengdu sítflu í Laxá. Þeir virðast hins vegar ekkert spenntir fyrir því að friðlýsa allt Gjástykki.

Gjástykki er eitt af þeim háhitasvæðum á heiðunum norðan Mývatns sem rætt er um að virkja fyrir stóriðju. Svæðið er í þremur sveitarfélögum, Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi, og hafa þau nú öll lýst yfir andstöðu við ósk ríkisstjórnarinnar um algera friðlýsingu en vilja standa við þriggja ára gamalt skipulag, sem gerir ráð fyrir að tvö prósent Gjástykkis verði tekin undir orkuvinnslu.

Dagbjört Bjarnadóttir, oddviti Skútustaðahrepps, segir menn óttast að ef Gjástykki verði friðlýst þá fari skipulagsvaldið frá sveitarfélögunum. Menn spyrji ennfremur hvað fylgi friðlýsingu.

Forystumenn á Húsavík hafa fullyrt opinberlega að krafa ríkisstjórnarinnar um algera friðlýsingu Gjástykkis hafi þann megintilgang að koma í veg fyrir álver. En hvað segja heimamenn, eins og Mývetningar, sem sennilega þekkja svæðið betur en flestir aðrir? Dagbjört er spurð hvort einhverjar kröfur eða frumkvæði hafi komið frá heimamönnum um friðlýsingu Gjástykkis:

"Nei, það hef ég aldrei heyrt. Og reyndar ekkert mikið í almennri umræðu hér. Ég hef ekki orðið vör við það."

-Hvaðan kemur þá þessi hugmynd, - hvar verður hún til, - að friðlýsa Gjástykki, ef ekki hér?

"Hugmyndin kemur frá náttúruverndarsamtökum og umhverfisráðherra," svarar Dagbjört.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×