Innlent

Goðafoss strandaði við Noreg - 500 til 800 tonn af olíu um borð

Mynd frá Redningsselskapet í Noregi.
Mynd frá Redningsselskapet í Noregi.
„Við vitum ekki hve miklar skemmdirnar eru, en það er verið að vinna að öllu sem gert er þegar svona gerist," segir Ólafur William Hand markaðs- og kynningarfulltrúi hjá Eimskip. Enginn í fjórtán manna áhöfn skipsins er slasaður.

Flutningaskipið Goðafoss strandaði við Fredrikstad í Østfold í Noregi klukkan hálf níu að norskum tíma þegar það var á leið til Helsingborg í Svíþjóð. Blaðið Dagbladet.no segir að olía leki úr skipinu. Ólafur segir að norska strandgæslan sé á leiðinni á svæðið með flotgirðingar til að koma í veg fyrir olíumengun.

„Veðrið og aðstæður á svæðinu eru mjög góðar. Áhöfnin er örugg um borð og eru að vinna sína vinnu þegar svona kemur upp," segir Ólafur en fjórtán manna áhöfn er um borð.

Ekki er vitað hvers vegna skipið strandaði en veðrið er, eins og áður segir, mjög gott. „Það er bara verið að vinna í björgunarmálum núna, þetta er skerjagarður, en við vitum ekki hvað hefur gerst, það verður skoðað síðar, nú er verið að vinna að því að koma í veg fyrir mengunarslys," segir Ólafur.

Blaðið Aftenposten segir að slagsíða sé komin á skipið, allt að átta til tíu gráður. Þá er einnig haft eftir Paul Overgaard Bust, björgunarmanni á vettvangi, að talsverð olíulykt sé á svæðinu og telja þeir að allt að 500 til 800 tonn af olíu kunni að vera um borð í skipinu og er viðbúnaður því mikill á svæðinu.

Goðafoss er 165 metra langur og 28 metrar á breidd og vegur yfir 17 þúsund tonn.

Norska Ríkisútvarpið er með beina útsendingu frá slysstað. Hægt er að horfa á NRK1 á Stöð 2 Fjölvarp en einnig er hægt að fylgjast með heimasíðu þeirra hér.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×