Lífið

Klovn-tvíeyki til landsins

„Jú, þeir eru að koma, lenda á fimmtudaginn og verða væntanlega fram yfir helgi," segir Sigurður Victor Chelbat hjá Sambíóunum. Klovn-tvíeykið, Frank Hvam og Casper Christensen, ætlar að sækja Ísland heim í vikunni og kynna myndina sína Klovn: The Movie.

Myndin hefur fengið afbragðsgóða dóma í dönskum fjölmiðlum, stefnir hraðbyri að aðsóknarmeti þar og svo hafa Íslendingar verið veikir fyrir þessari kolsvörtu kómík frá herraþjóðinni fyrrverandi. Sigurður Victor segir Frank og Casper ætla að vera viðstadda nokkrar sýningar enda séu þeir spenntir að sjá hvernig íslenska þjóðin taki myndinni.

Það hefur mikið verið rætt og ritað um Klovn-tvíeykið í íslenskum fjölmiðlum og sjálfir hafa þeir félagar lýst því yfir að vinsældir þeirra hér á landi séu ótrúlegar. Þeir hafa raunar bundist Íslendingum miklum tryggðaböndum, Frank Hvam lék á móti Frímanni Gunnarssyni í sjónvarpsþáttunum Mér er gamanmál og saman komu þeir fram á mikilli uppistandssýningu í Háskólabíói á síðasta ári.

Casper og eiginkona hans Iben Hjejle, sem leikur einnig í þáttunum, héldu jólin hér á landi fyrir tveimur árum og Iben var formaður dómnefndar RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík.

Sigurður segist búast við því að þeir Frank og Casper ætli að mála bæinn rauðan og verið sé að leggja drög að teiti fyrir þá tvo. Þar komi Austur sterklega til greina. „Annars eru þeir miklir Dillon-menn og fara þangað þegar þeir eru á annað borð á Íslandi."- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.