Innlent

Viðburðastýrð umferðarljós við Hörpuna

Vinna við að koma upp nýjum stýribúnaði umferðarljósa við Hörpuna hefst á morgun. Umferðarljósin verða búin skynjurum sem mæla umferðarþunga frá húsinu inn á gatnamót Sæbrautar, Kalkofnsvegar og Faxagötu, og lengja þau tímann sem græna ljósið logar þegar umferðin þyngist. Það má því segja að hér séu fyrstu viðburðastýrðu umferðarljósin í Reykjavík, en búist er við miklum sveiflum í umferðarþunga við Hörpuna sem opnar í maí.

Framkvæmdir hefjast eftir að þungi morgunumferðar er hjá miðvikudaginn 23. mars og er gert ráð fyrir að verkið taki um 2 daga. Ljósin verða óvirk meðan unnið er við tengingar og til að gæta umferðaröryggis á gatnamótunum verða vinstri beygjur bannaðar tímabundið. Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát meðan á framkvæmdum stendur og virða hraðatakmarkanir.

Undirbúningur að breytingu umferðarljósanna hefur staðið yfir síðustu vikur og hafa gatnamótin verið endurgerð, bæði með tilliti til bílaumferðar, en einnig hefur sérstaklega verið hugað að öryggi gangandi vegfarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×