Fótbolti

Redknapp vill að UEFA refsi Flamini

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Corluka er hér borinn af velli í gær.
Corluka er hér borinn af velli í gær. Nordic Photos / AFP
Harry Redknapp, stjóri Tottenham, vill að Knattspyrnusamband Evrópu refsi Mathieu Flamini, leikmanni AC Milan, fyrir tveggja fóta tæklingu sem næstum fótbraut Vedran Corluka í leik liðanna í gær.

Corluka var borinn af velli snemma í síðari hálfleik eftir tæklingu Flamini sem fékk aðeins að líta áminningu fyrir.

Redknapp segir að engin spurning sé um það að Flamini hefði átt að fá rauða spjaldið fyrir tæklinguna.

„Þetta var hræðileg tækling hjá Flamini. Hann var með báða fætur á lofti og hefði getað fótbrotið Corluka," sagði Redknapp og bætti við að meiðsli Corluka yrðu skoðuð betur í dag.

„Ég held þó að það sé ekkert brotið en það hefði auðveldlega getað gerst."

„Ég myndi gjarnan vilja að UEFA myndi skoða þetta atvik nánar. Ég skil ekki af hverju hann fékk ekki rautt spjald. Leikmenn fótbrotna eftir svona tæklingar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×