Lífið

Óbætanlegum munum stolið úr skúr í miðbænum

Vigdís Hrefna Pálsdóttir varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að brotist var inn í skúr í garðinum hjá henni og öllu stolið.
Vigdís Hrefna Pálsdóttir varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að brotist var inn í skúr í garðinum hjá henni og öllu stolið. Fréttablaðið/Valli
„Þetta er mikið áfall fyrir okkur og vindurinn fer svolítið úr manni,“ segir Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikkona en brotist var inn til hennar fyrr í vikunni.

Þjófarnir brutust inn í skúr í garðinum við hús Vigdísar aðfaranótt þriðjudags og létu greipar sópa. Nýbúið var að klæða skúrinn og færa öll verkfærin þangað yfir. Tapið hljóðar upp á mörg hundruð þúsund krónur en meðal þess sem tekið var eru verkfæri sem hafa tilfinningalegt gildi fyrir fjölskylduna.

„Til dæmis var þarna naglbítur sem langafi minn átti og önnur verkfæri sem hafa gengið kynslóðanna á milli í okkar fjölskyldum. Einnig áttum við stórt safn af gömlum hurðarhúnum sem við höfum sankað að okkur í langan tíma en þeir voru allir teknir,“ segir Vigdís og bætir við að þessir hlutir séu óbætanlegir fyrir þau.

„Við erum að gera lista yfir það sem var tekið og það er rosalega mikið. Við erum búin að kæra þjófnaðinn til lögreglu,“ segir Vigdís, sem festi kaup á húsinu á Bergstaðastræti fyrr á þessu ári.

Húsið var í niðurníðslu þegar Vigdís og maður hennar, Örn Úlfar Höskuldsson, keyptu það og hafa þau unnið hörðum höndum að því að gera húsið upp og íbúðarhæft á skömmum tíma. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hlutir hafa verið teknir ófrjálsri hendi í kringum húsið. Gamlar hurðir sem þau fengu gefins og ætluðu að nota voru teknar og hjóli dóttur þeirra var stolið fyrir utan húsið fyrr í sumar.

„Við erum búin að gera húsið upp að mestu leyti sjálf og okkur líður mjög vel í þessu húsi. Þess vegna finnst manni þetta kannski ennþá meiri innrás og tilfinningin er eins og maður hafi verið kýldur í magann,“ segir Vigdís og biðlar til fólks að hafa augu og eyru opin fyrir notuðum verkfærum, hurðarhúnum, gömlum ljósarofum með áföstum tréplatta og skærgulri Dewalt veltisög á næstu dögum.

alfrun@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.