Lífið

Högni semur tónlistina við Hróa hött

Högni Egilsson semur tónlistina við leikritið Hróa hött sem verður frumsýnt í Royal Shakespeare Theatre 1. desember.
Högni Egilsson semur tónlistina við leikritið Hróa hött sem verður frumsýnt í Royal Shakespeare Theatre 1. desember. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta verður mjög spennandi. Þetta er eitthvað sem ég hef ekki gert áður, ekki á erlendri grundu alla vega,“ segir tónlistarmaðurinn Högni Egilsson.

Hann hefur verið fenginn til að semja tónlistina við verkið Hrói höttur sem leikhópurinn Vesturport frumsýnir í Konunglega Shakespeare-leikhúsinu í Stratford-upon-Avon hinn 1. desember. Hann hefur áður samið tónlist við Shakespeare-verkið Ofviðrið sem var sýnt í Borgarleikhúsinu en núna er hann á leiðinni í sjálft Shakespeare-leikhúsið.

Högni er með mörg verkefni í gangi um þessar mundir. Hann er nýkominn heim frá Mílanó þar sem hann söng með Gus Gus og er á leiðinni í tónleikaferð með sveitinni í október. Einnig er hann á fullu með hljómsveitinni Hjaltalín og er að vinna sína fyrstu sólóplötu sem hann gerir í kjölfar sólótónleika sinna á Listahátíð í Reykjavík fyrr á árinu. „Ég þurfti að finna út úr því hvort þetta myndi ganga tímalega því haustið er svolítið bókað,“ segir Högni, sem fékk símtal frá Gísla Erni Garðarssyni, leikstjóra Hróa hattar, um að taka að sér að semja tónlistina.

Högni verður búsettur í London í nóvember og desember vegna leiksýningarinnar. Aðspurður hvort hann hafi horft á margar Hróa hattar-kvikmyndir til að koma sér í réttu stemninguna segist hann bara vera búinn að lesa handrit leikritsins. „Reyndar hefur Robin Hood: Men In Tights alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, þannig að þetta passar ágætlega við mig.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.