Lífið

Quarashi gengur aftur í tveimur nýjum myndum

Hljómsveitin Quarashi kom víða við á meðan hún starfaði. Lögin Stick ‘Em Up og Mr. Jinx heyrðust í fjölmörgum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Frá vinstri eru Ómar, Höskuldur, Steini og Sölvi. Mynd/þök
Hljómsveitin Quarashi kom víða við á meðan hún starfaði. Lögin Stick ‘Em Up og Mr. Jinx heyrðust í fjölmörgum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Frá vinstri eru Ómar, Höskuldur, Steini og Sölvi. Mynd/þök
„Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem þetta gerist, held ég," segir hönnuðurinn Ómar Örn Hauksson, sem rappaði með hinni sálugu Quarashi.

Lagið Stick 'Em Up, sem kom út á plötunni Jinx árið 2002, heyrist í myndunum Death Race 2, sem kom út í lok árs 2010, og The Mechanic, með Jason Statham, sem er væntanleg á árinu. Jinx var þriðja breiðskífa Quarashi og Stick 'Em Up var vinsælasta lag hljómsveitarinnar og komst meðal annars í 27. sæti bandaríska US Modern Rock lista Billboard-tímaritsins á sínum tíma.

„Ég vissi ekki af þessu fyrr en ég sá þetta á Youtube, þar eru menn greinilega fyrstir með fréttirnar," segir Ómar. „Þetta kemur á óvart, ég bjóst ekki við þessu. Það er vonandi að þetta skili sér inn á bankareikninginn hjá manni."

Lög Quarashi heyrðust víða upp úr aldamótum þegar hljómsveitin hafði samið við útgáfurisann Sony og kom sér á framfæri í Bandaríkjunum.

Lögin Stick 'Em Up og Mr. Jinx heyrðust í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum á borð við 2 Fast 2 Furious, Alias, Smallville og í auglýsingum fyrir NBA-deildina á sjónvarpsstöðinni TNT. Þá hafa lög Quarashi af plötunni Jinx heyrst í tölvuleikjunum Amplitude, NFL Blitz, Transworld Snowboarding og Madden NFL. Loks voru myndbönd hljómsveitarinnar meðal annars spiluð á MTV og systurstöðinni MTV2.

Ómar segir lög Quarashi ekki hafa heyrst mikið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eftir að hljómsveitin hætti árið 2005 - þar til nú. „Lagið Payback var reyndar notað í einni mynd í fyrra," rifjar hann upp. „Spurning hvort Dressmann fari að hafa samband við okkur fyrst við erum orðnir retró eins og Rolling Stones."

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.