„Það hefur verið erfitt fyrir þá sem sitja í dómsalnum að hlusta á óhugnanlegar lýsingarnar á morðinu. Ekki síst fyrir fjölskyldu, vini og aðstandendur Hannesar. Þetta hefur verið erfiður morgunn," sagði fréttamaðurinn Andri Ólafsson, í viðtali við Bylguna í hádeginu, þar sem hann lýsti andrúmsloftinu í réttarhöldunum yfir Gunnar Rúnari Sigurþórssyni.
Réttarhöldin hófust klukkan níu í morgun. Þá þegar tilkynnti verjandi Gunnars að hann myndi ekki gefa skýrslu heldur staðfesti hann einungis það sem hefði komið fram í skýrslum og yfirheyrslum yfir honum. Því næst fékk hann leyfi til þess að yfirgefa réttarsalinn.
Þrír geðlæknar gáfu svo skýrslu um sakhæfi Gunnars í morgun. Þeir eru allir á einu máli um að Gunnar sé ósakhæfur. Meðal annars var farið yfir áfall sem Gunnar varð fyrir þegar hann var níu ára gamall. Þá svipti faðir hans sig lífi. Það varð meðal annars til þess að Gunnar á erfitt með að mynda tilfinningatengsl og bjó beinlínis í sýndarveruleika, eins og einn geðlæknirinn komst að orði.
Ríkissaksóknari er ósammála því að Gunnar sé ósakhæfur og benti á að hinn mikli undirbúningur fyrir morðið benti til þess að Gunnar hefði haft fulla stjórn á sér þegar hann varð Hannesi Þór Helgasyni að bana í ágúst á síðasta ári.
Fjöldi fólks mætti í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Vísa þurfti fólki inn í hliðarsal þar sem réttarhöldunum er útvarpað vegna plássleysis í réttarsalnum.
Fréttamaður Vísis situr réttarhöldin og mun skýra frá þeim á Vísi í dag.