Viðskipti erlent

Gífurleg eftirspurn eftir evrubréfum úr björgunarsjóði

Gífurleg eftirspurn varð eftir skuldabréfum í evrum í fyrsta útboði EFSF björgunar- eða stöðugleikasjóðs ESB. Tilboð upp á yfir 40 milljarða evra bárust frá sumum af stærstu opinberu og einkasjóðum heimsins.

Í frétt um málið í Financial Times segir að bankamenn muni ekki eftir jafnmikilli eftirspurn í neinu skuldabréfaútboði áður, hvort sem er hjá opinberum eða einkaaðilum.

Eftirspurnin gerði það að verkum að EFSF fékk mjög góð vaxtakjör á þessa útgáfu enda var hún aðeins upp á 5 milljarða evra eða áttfalt minni en nam eftirspurninni. Ávöxtunarkrafan var 2,8% sem er töluvert minni krafa en er á þýskum ríkisskuldabréfum.

Einn bankamannanna sem Financial Times ræddi við um útboðið sagði að eftirspurnin hefði verið stórbrotin. „Ég man ekki eftir jafnmiklum áhuga. Þessar pantanir í bréfin komu á aðeins fimmtán mínútum," segir hann.

Skuldabréf EFSF eru með lánshæfiseinkunina AAA og því mjög aðlaðandi fjárfestingarkostur fyrir seðlabanka, fjárfestingarsjóði á vegum hins opinbera og stærri einkarekna sjóði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×