Innlent

Gjaldskrárhækkanir og fækkun starfsfólks til umræðu í Orkuveitunni

Símon Örn Birgisson skrifar
Tugmilljarða björgunarpakki fyrir Orkuveitu Reykjavíkur er nú til umræðu hjá borginni. Umfangsmiklar gjaldskrárhækkanir, sala eigna, fækkun starfsfólks og frestun á fyrirhuguðum framkvæmdum eru á borðinu.

Borgarráð kom saman til aukafundar hér í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun þar sem einungis eitt mál var á dagskrá fundarins - hvernig sé hægt að bjarga Orkuveitu Reykjavíkur. Fundinum var frestað til morguns þar sem reynt verður að ná sátt um björgunarpakka upp á tugi milljarða króna.

Samkvæmt heimildum fréttastofu felst í þessum björgunarpakka að Orkuveitan muni dragi úr fyrirhuguðum framkvæmdum á næstu árum upp á um annan tug milljarða króna. Rekstrarkostnaður verði lækkaður um fimm milljarða króna, meðal annars með uppsögnum starfsfólks. Afla á tíu milljarða með sölu eigna, líkt og Gagnaveitunnar. Þá á að auka tekjur um nokkra milljarða með enn frekari hækkun gjaldskráa fyrir vatn og rafmagn.

Auk þess munu eigendur orkuveitunnar, Reykjavíkurborg og önnur minni sveitarfélög leggja til fé í reksturinn. Það gæti þýtt að lánalínur til Orkuveitunnar opnist á ný en fyrirtækið hefur ekki fengið endurfjármögnun lána sinni frá erlendum lánadrottnum um nokkurn tíma.

Erfitt hefur reynst að ná í yfirmenn hjá Reykjavíkurborg og Orkuveitunni í dag og vildi Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunnar, ekki veita fréttastofu viðtal. Það er kannski til marks um alvarleika málsins að samkvæmt heimildum fréttastofu er ein af þeim eignum sem rætt er um að selja, sjálfar höfuðstöðvarnar, hér fyrir aftan mig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×