Handbolti

Kristinn: Mættum til leiks í síðari hálfleik

Stefán Árni Pálsson í Digranesinu skrifar
Kristinn Guðmundsson.
Kristinn Guðmundsson.
„Þetta var virkilega súrsætur leikur, en við mættum ekki til leiks fyrir en í hálfleik," sagði Kristinn Guðmundsson, annar þjálfari HK, eftir tapið í kvöld. HK-ingar töpuðu, 32-29, fyrir Akureyri eftir að hafa verið 10 mörkum undir í hálfleik. Leikurinn var hluti af 19.umferð N1-deilda karla og fór fram í Digranesinu.

 

„Í fyrri hálfleik voru við okkur til háborinnar skammar. Við fórum út í síðari hálfleikinn með það að leiðarljósi að laga stöðuna aðeins og komast eins og menn frá leiknum," sagði Kristinn.

 

„Strákarnir komu virkilega sannfærandi til baka og við getum í raun verið svekktir með það að hafa ekki hreinlega hrifsað sigurinn úr höndunum á Akureyri."

 

„Um leið og ég er virkilega stoltur af strákunum hvernig þeir komu út í síðari hálfleikinn þá er ég hrikalega óánægður með hvernig við mættum til leiks. Ég hef engar áhyggjur af liðinu ef við spilum eins og síðustu 25 mínútur leiksins, en menn verða að vera rétt innstilltir þegar þeir mæta til leiks," sagði Kristinn.

 

„Undir lokin þá leituðu leikmenn mínir mikið inn á línu sem er oft merki um það að menn þora ekki að taka sjálfir á skarið, en það varð okkur kannski að falli. Sveinbjörn Pétursson hefur verið algjör martröð fyrir okkur í vetur og við hreinlega ráðum ekki við hann, en við fórum að skjóta almennilega á hann í síðari hálfleik," sagði Kristinn.

 

HK er í fjórða sæti deildarinnar með 20 stig, en þeir mæta sjóðheitu liði Fram í næstu umferð og það er leikur upp á líf og dauða.

 

„Það eru enn tveir leikir eftir að tímabilinu og þetta er í okkar höndum, en við verðum að spila betur en í kvöld," sagði Kristinn nokkuð bjartsýnn á framhaldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×