Innlent

Ráðherrar skyldaðir til að ganga í takt

Nöfnurnar og ráðherrarnir Katrín Jakobsdóttir og Júlíusdóttir stinga saman nefjum. fréttablaðið/anton
Nöfnurnar og ráðherrarnir Katrín Jakobsdóttir og Júlíusdóttir stinga saman nefjum. fréttablaðið/anton
Óánægju gætir í ráðherraliði VG með nýtt frumvarp til breytinga á lögum um Stjórnarráðið. Frumvarpið var kynnt og samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag. Eftir því sem næst verður komist lýstu tveir ráðherrar VG andstöðu við frumvarpið; Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Jón mun hafa bókað andstöðu sína en Ögmundur samþykkt málið með fyrirvara.

Frumvarpið veitir meðal annars stjórnvöldum á hverjum tíma heimild til að skipuleggja Stjórnarráðið. Í gildandi lögum eru ráðuneytin talin upp en frumvarpið gerir ráð fyrir að aðeins verði kveðið á um hámarksfjölda ráðuneyta í lögunum. Stjórnvöld ákveði hvaða ráðuneyti skuli starfrækt.

Efla ber samhæfingu starfa milli ráðherra. Í þeim tilgangi er í frumvarpinu kveðið á um skyldu ráðherra til að leitast við að samhæfa stefnu sína og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið skarast og auk þess kveðið sérstaklega á um skyldu forsætisráðherra til að hafa frumkvæði að samhæfingu starfa ef á þarf að halda.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er það einkum þetta sem fer fyrir brjóstið á gagnrýnendum í VG. Líta þeir svo á að með þessu ákvæði og þessum anda sé í raun verið að skylda hvern og einn ráðherra í ríkisstjórn Íslands til að fara í einu og öllu að vilja forsætisráðherra. Við bætist að ætlunin er að veita forsætisráðherra vald til að ákveða skiptingu starfa milli ráðherra. Er í þeim efnum einkum horft til áforma um stofnun atvinnuvegaráðuneytis en það hefur verið eitt af hjartans málum Samfylkingarinnar en mætt andstöðu innan VG. Er kveðið á um þá breytingu í stjórnarsáttmálanum. Verði frumvarpið að lögum þarf ekki sérstaka lagabreytingu til að koma atvinnuvegaráðuneytinu á fót; aðeins ákvörðun forsætisráðherra og samþykki ríkisstjórnarinnar.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að ráðherrar fái að ráða sér sérstakan ráðgjafa án auglýsingar, með sama hætti og þeir fá nú að ráða sér aðstoðarmenn. Frumvarpið er byggt á niðurstöðum og tillögum sem settar voru fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, tillögum starfshóps sem forsætisráðherra skipaði um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndarinnar, skýrslu þingmannanefndar sem fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og tillögum nefndar um endurskoðun á lögum um Stjórnarráðið. bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×