Innlent

Fíkniefnamál þingfest - ákærði í útlöndum

Mynd úr safni / Hari
Ríkissaksóknari hefur ákært karlmann á fimmtugsaldri fyrir að hafa í nóvember 2009 fjármagnað og flutt inn 318 grömm af kókaíni til Íslands. Í ákæru segir að efnið hafi verið flutt frá Bandaríkjunum um Keflavíkurflugvöll og að það hafi verið ætlað til sölugreifingar í ágóðaskyni.

Þingfesting fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en þar sem ákærði er staddur erlendis, eftir því sem embætti ríkissaksóknara kemst næst, var málinu frestað þar til í maí.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir að hafa drýgt hluta efnisins með íblöndunarefni og að hafa þann 26. nóvember, viku síðar, haft í vörslu sinni fíkniefni sem að hluta voru ætluð til söludreifingar; rúm 482 grömm af kókaíni, um 341 grömm af amfetamíni og hálft gramm af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Þá mætti fyrir dóm í morgun kona á þrítugsaldri, sem var ákærð ásamt karlmanninum, og er henni gefið að sök að hafa, þann 26. nóvember 2009, haft í vörslu sinni 482 grömm af kókaíni, um 341 grömm af amfetamíni.

Konan neitaði sök fyrir dómi.

Maðurinn hefur einnig verið ákærður fyrir að hafa í desember 2008 flutt inn til landsins tæp 147 grömm af kókaíni auk steralyfja til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærði er sagður hafa falið kókaínið og sterana í ferðatöskum sem hann sendi með fraktflugi frá Amsterdam til Íslands, en tollverðir á Keflavíkurflugvelli fundi efnin.

Honum eru sömuleiðis gefin að sök nokkur smærri fíkniefnabrot, umferðarlagabrot vegna aksturs undir áhrifum áfengis og fíkniefna, auk ræktunar á kannabisplöntum og vörslu á kannabisefnum. Nýjustu brotin er sögð framin í september á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×