Innlent

Kosning til stjórnlagaþings ógild

Kosningin til stjórnlagaþings, sem fram fór í nóvember síðastliðnum, er ógild. Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem tók ákvörðun í málinu í dag.

Þrír menn kærðu framkvæmd kosninganna og kröfðust ógildingar. Kærurnar voru sameinaðar fyrir Hæstarétti en þær snérust um framkvæmd kosninganna og talningu á kjörseðlum.

Að mati Hæstaréttar var veigamesti annmarkinn á framkvæmdinni sá, að kjörseðlar voru númeraðir. Þá telur rétturinn það annmarka á kosningunni að kjörklefar skuli hafa verið opnir auk þess sem kjörkassar hafi ekki uppfyllt skilyrði.

Þá var fyrirkomulag talningar einnig kært til Hæstaréttar og komst rétturinn að því að verulegir annmarkar hafi verið á henni. Til dæmis var sérstakur fulltrúi frambjóðenda ekki skipaður og talning atkvæða fór ekki fram fyrir „opnum dyrum" eins og lögskylt var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×