Innlent

Endist ekki ævin til þess að borga námslánin

ríkisendurskoðun.
ríkisendurskoðun.
Af þeim sem hófu endurgreiðslu námslána árið 2010 skulduðu um 16 prósent námsmanna meira en 6 milljónir króna og samtals rúmlega 40 prósent af heildarskuldum hópsins. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar þar sem lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) er skoðaður.

Þar kemur meðal annars fram að námslán afskrif­ast að fullu við and­lát lánþega og þar sem endurgreiðsla þeirra er að hluta til tekju­tengd ná þeir, sem taka há lán, en hafa meðal­­­­tekjur, ekki að endur­greiða lánin að fullu.

Fram kemur að útlán LÍN hafi aukist verulega undanfarinn áratug vegna fjölgunar lánþega og hækkunar lánsfjárhæða. Árið 2001 lánaði sjóðurinn um 4,3 milljarða króna til námsmanna en sú upphæð var komin upp í um 15,7 milljarða árið 2010.

Ríkissjóður ber rúmlega helm­ing kostnaðar vegna útlána sjóðsins.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að tryggja að skólagjaldalán vegna náms við íslenska skóla séu ekki hærri en raunkostnaður kennslunnar. Einnig telur stofnunin að þrengja eigi reglur um skólagjaldalán vegna náms erlendis. Þá sé eðlilegt að réttur til námslána takmarkist við tiltekinn aldur, t.d. 18–50 ár, líkt og gert er víða erlendis. Hámarkslán til námsmanns eigi að miðast við að einstaklingur með meðaltekjur næði að greiða það upp fyrir 60 ára aldur.

Ríkisendurskoðun telur einnig núverandi fyrirkomulag óhentugt. Fram kemur að sjóðurinn leggur sjálfur mat á lánshæfi náms en bæði stjórnendur sjóðsins og Ríkisendurskoðun telja það fyrirkomulag óheppilegt. Í skýrslunni er lagt til að menntamálayfirvöld skipi sérstaka nefnd til að annast þetta verkefni.

Slíkar nefndir starfa annarsstaðar á Norðurlöndunum. Einnig er lagt til að einungis verði veitt lán vegna náms sem uppfyllir skilgreindar gæðakröfur menntamálayfirvalda en dæmi eru um að sjóðurinn hafi veitt lán vegna náms sem ekki gerir það.

Hægt er að nálgast skoðunina hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×