Innlent

Gömlu bankarnir í limbói

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
„Það er engum til góðs að skilanefndir verði til sjálfs sín vegna um langt árabil," segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Hann lagði fram stjórnarfrumvarp um eftirlit með skilanefndum gömlu bankanna á Alþingi fyrir mánuði. Í breytingartillögu við frumvarpið í viðskiptanefnd á þriðjudag var lagt til sólarlagsákvæði sem felur í sér að skilanefndir verði lagðar niður um næstu áramót og að slitastjórnir taki við starfi þeirra.

Skilanefndir voru settar yfir bankana þegar þeir fóru á hliðina í október árið 2008. Þær hafa séð um þrotabúin fyrir hönd kröfuhafa.

„Fjármálastofnanir eru nú í limbói þar til leyst verður úr gjaldþrotum þeirra og þeim komið í hendur raunverulegra eigenda," segir Árni Páll og áréttar mikilvægi þess að kröfuhafar bankanna taki við rekstri þeirra svo þeir geti haft viðskipti með hluti í þeim.

„Menn telja óheppilegt að gera þetta í miðju ferli en það ætti ekki að breyta miklu fyrir starfsemina. Skilanefndin fær þá tíma til að klára ýmis mál, svo sem söluna á Iceland Foods," segir Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar gamla Landsbankans.

Gamla Kaupþing er að hefja nauðasamningaferli. Ekki náðist í Árna Tómasson, formann skilanefndar Glitnis, við vinnslu fréttarinnar. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×