Sport

Gerði grín að Plaxico og þóttist skjóta sig í fótinn

Það gleymist seint þegar Plaxico Burress skaut sjálfan sig í lærið, í bókstaflegri merkingu, á næturklúbbi í New York. Stevie Johnson, leikmaður Buffalo Bills, var svo sannarlega ekki búinn að gleyma því er hann mætti Burress um síðustu helgi.

Þegar Johnson skoraði snertimark í leiknum fagnaði hann með því að þykjast skjóta sig í fótinn. Fagnið kom svo í bakið á honum því Bills fékk dæmt á sig víti vegna fagnaðarlátanna. Sparkið í kjölfarið misheppnaðist, Jets fékk fína vallarstöðu og skoraði snertimark. Það sem meira er þá skoraði Plaxico snertimarkið. Johnson bað félaga sína afsökunar eftir leikinn.

Skiptar skoðanir eru um fagnið. Á meðan mörgum fannst það bráðfyndið sögðu sumir að það væri ósmekklegt.

Johnson lét ekki duga að biðja félaga sína afsökunar því hann sendi Burress sms þar sem hann baðst afsökunar. Burress tók málinu ekki illa.

"Ég hef ekkert um þetta að segja. Ég er mikill aðdáandi stráksins og hef gaman af því að horfa á hann spila. Þetta truflaði mig ekkert," sagði Burress sem mátti sitja í fangelsi eftir að hann skaut sig í fótinn á sínum tíma.

Myndband af atvikinu má sjá hér að ofan. Einnig má geta þess að það er goðsögnin Marv Albert sem lýsir en hann er vanari því að lýsa körfubolta.





NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×