Lífið

Yfir tvö þúsund á Rokland

Ágæt aðsókn Rokland fékk ágætis aðsókn um helgina en alls sáu 2.182 hana. Hér eru Ólafur Darri Ólafsson og Elma Lísa Gunnarsdóttir í hlutverkum sínum.
Ágæt aðsókn Rokland fékk ágætis aðsókn um helgina en alls sáu 2.182 hana. Hér eru Ólafur Darri Ólafsson og Elma Lísa Gunnarsdóttir í hlutverkum sínum.
Klovn er enn vinsælasta mynd landsins. Ágætis aðsókn hefur einnig verið á íslenskar myndir.

Rokland, kvikmynd Marteins Þórssonar eftir bók Hallgríms Helgasonar, fékk ágætis aðsókn um helgina. Alls sáu hana 2.182 sem verður að teljast fínt. Myndin hefur fengið mjög blendnar viðtökur, fékk tvær stjörnur í Fréttablaðinu, þrjár stjörnur í Fréttatímanum en fjórar í Morgunblaðinu; gagnrýnendur virðast því skiptast í nokkuð ólík horn. Myndin segir frá Bödda, sem tekur að sér framhaldsskólakennarastöðu á Sauðárkróki þar sem móðir hans býr. Böddi hefur sterkar skoðanir á öllu og nær á stuttum tíma að fá alla íbúana upp á móti sér. Ólafur Darri leikur aðalhlutverkið í myndinni en hann er dyggilega studdur af þeim Láru Jóhönnu Jónsdóttur, Elmu Lísu Gunnarsdóttur og Stefáni Halli Stefánssyni.

Kvikmyndin Gauragangur var frumsýnd á annan í jólum en hún er einnig byggð á skáldsögu, samnefndri bók Ólafs Gauks um Orm Óðinsson og glímuna við lífið sjálft. Hana hafa séð 9.427, sem telst ágætis aðsókn þótt aðstandendur hafi eflaust gert sér vonir um að myndin myndi ná til fleiri. Þetta er engu að síður svipaður fjöldi og sá unglingamyndina Óróa á sínum tíma. Annars virðist fátt geta skákað Klovn: The Movie því alls hafa nú þrjátíu þúsund séð þá Frank Hvam og Casper Christensen í alls konar vandræðum. freyrgigja@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.