Innlent

Rýrir útivistargildi svæðisins við Skálafell

Leggja á tvær rafmagnslínur milli Hellisheiðarvirkjunar og Þorlákshafnar. Fréttablaðið/óká
Leggja á tvær rafmagnslínur milli Hellisheiðarvirkjunar og Þorlákshafnar. Fréttablaðið/óká
Lagning rafmagnslínu milli Hellisheiðarvirkjunar og Sandskeiðs, sem kölluð er Þorlákshafnarlína 3, mun hafa veruleg neikvæð umhverfisáhrif að mati Skipulagsstofnunar.

Landsnet stefnir að því að leggja tvær línur frá Hellisheiðarvirkjun til Þorlákshafnar. Línurnar eru kallaðar Þorlákshafnarlínur 2 og 3, og eiga að sjá orkufrekum iðnaði á svæði vestan Þorlákshafnar fyrir orku.

Skipulagsstofnun gerir ekki miklar athugasemdir við línu 2, þar sem hún á að liggja um svæði sem þegar hefur verið raskað. Lína 3 á hins vegar að liggja frá tengivirki Orkuveitu Reykjavíkur á Orrustuhól á Hellisheiði, öðru hvoru megin við Skálafell og að Sandfelli við Þorlákshöfn, um land sem ekki hefur verið raskað.

Verði línan lögð verður veruleg röskun á stærstu landslagsheildunum á Hengils- og Hellisheiðarsvæðinu sem enn eru ósnortnar vega sjónrænna áhrifa, að mati Skipulagsstofnunar. Í áliti stofnunarinnar kemur fram að með auknu raski á Hengilssvæðinu hafi verndargildi ósnortinna svæða farið vaxandi.

„Skipulagsstofnun telur því ótvírætt að lagning Þorlákshafnarlínu 3 muni hafa verulega neikvæð áhrif á landslag og muni rýra talsvert útivistargildi svæðisins í kringum Skálafell sem Sveitarfélagið Ölfus hefur skilgreint sem hverfisverndarsvæði vegna útivistar,“ segir í álitinu.

Þar segir jafnframt að Landsnet hafi ekki fært rök fyrir því að línurnar geti ekki legið samhliða eftir leið 2 á stórum kafla, sem muni hafa mun minni umhverfisáhrif.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×