Innlent

Ætla að hlaupa hringinn fyrir krabbameinsveik börn

Hlaupið hófst í morgun.
Hlaupið hófst í morgun.
Þau Signý Gunnarsdóttir, Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, Alma María Rögnvaldsdóttir og Guðmundur Guðnason hófu hringferð sína í morgun en þau stefna á að hlaupa hringinn í kringum Ísland til styrktar krabbameinsveikum börnum og fjölskyldum þeirra. Átakið heitir „Á meðan fæturnir bera mig“.

Sjálf eru þau ekki ókunnug erfiðleikunum sem fylgja slíkum veikindum en í janúar 2010 greindist þriggja ára sonur Sveins og Signýjar með hvítblæði og hefur hann gengið í gegnum strembna lyfjameðferð.

Eftir margra mánaða raunir er hann kominn á beinu brautina og er nú í töflumeðferð þar til haustið 2012.

Hann er frísklegur í dag og varla hægt að merkja á honum að hann hafi gengið í gegnum gríðarlega þrautargöngu. Í ágúst 2010 tóku Sveinn og Signý, Alma María systir Sveins og Guðmundur maður hennar ákvörðun um að hlaupa hringinn í kringum landið fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna og fá þannig tækifæri á að skila til baka til félags sem hefur reynst ómetanlegur stuðningur.

Hver hlaupari hleypur að meðaltali um 24 kílómetra á dag og verður því farið yfir tæplega 100 kílómetra daglega.

Hópurinn lagði af stað frá Barnaspítala hringsins í morgun. Hægt er að fara inn á heimasíðu hópsins og leggja málefninu lið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×