Sport

Fjórða tap Colts í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeGarrette Blount í leiknum í gær.
LeGarrette Blount í leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Fjarvera Payton Manning hefur greinilega mikil áhrif á lið Indianapolis Colts en liðið hefur nú tapað öllum fjórum leikjum sínum í upphafi NFL-leiktíðarinnar. Colts tapaði í gær fyrir Tampa Bay Buccaneers, 24-17, eftir að hafa verið yfir lengst af í leiknum.

LeGarrette Blount skoraði snertimark eftir 35 jarda hlaup þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka og tryggði Tampa Bay þar með sigur í leiknum.

Manning er leikstjórnandi og hefur verið lykilmaður í liði Colts undanfarin þrettán ár. Staðgengill hans, Curtis Painter, átti þó fínan leik í gær og átti frábæra sendingu á Pierre Garcon í upphafi leiks sem skoraði snertimark eftir 87 jarda hlaup. Manning er nú fjarverandi vegna meiðsla.

En það dugði ekki til. Josh Freeman, leikstjórnandi Tampa Bay, átti stórleik og fór fyrir sínu liði í seinni hálfleik er liðið tryggði sér sigur. Alls kláraði hann 25 af 39 sendingum í leiknum sem skiluðu 287 jördum og einu snertimarki. Þá skoraði hann sjálfur snertimark í leiknum.

Þetta er versta byrjun Colts í NFL-deildinni í áraraðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×