Lífið

Draumar breytast í martröð hjá Verzló og MR

Björg Brjánsdóttir, formaður Herranætur, og Sigríður Dagbjört Ásgeirsdóttir, formaður Nemendamótsnefndar Verzlunarskólans, draga ekki úr gömlum erjum skólanna með því að setja upp nánast sömu sýninguna í febrúar. Fréttablaðið/Vilhelm
Björg Brjánsdóttir, formaður Herranætur, og Sigríður Dagbjört Ásgeirsdóttir, formaður Nemendamótsnefndar Verzlunarskólans, draga ekki úr gömlum erjum skólanna með því að setja upp nánast sömu sýninguna í febrúar. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við vorum búin að ræða þetta leikrit löngu áður en við vissum af Verzlunarskólanum, en vorum samt ekki búin að taka neina endanlega ákvörðum," segir Björg Brjánsdóttir, formaður Herranætur, leiklistarfélags Menntaskólans í Reykjavík, en skólinn frumsýnir leikverk Shakespeares, Draum á Jónsmessunótt, hinn 25. febrúar í húsi Norðurpólsins.

Sú staða er komin upp að Verzlunarskóli Íslands frumsýnir söngleikinn Drauminn í Loftkastalanum hinn 3. febrúar, en söngleikurinn er einmitt byggður á fyrrnefndu verki Shakespeares. Það er því ljóst að söguþráður sýninganna verður með ansi svipuðu sniði.

„Ég komst að þessu fyrir um þremur vikum. Það var mikill sorgardagur," segir Sigríður Dagbjört Ásgeirsdóttir, formaður Nemendamótsnefndar Verzlunarskólans. Sigríður segir undirbúninginn löngu hafinn, og því hafi ekki komið til greina að skipta um sýningu. „Það er náttúrlega ekkert hægt að breyta um sýningu núna, það fer allt að verða tilbúið."

Bæði Verzlunarskólinn og Menntaskólinn í Reykjavík eiga sér langa leiklistarsögu. Verzlunarskólinn hefur hins vegar alltaf sett upp söngleiki og verður engin breyting á því í ár.

„Þar sem við erum með söngleik tel ég að okkar sýning verði töluvert meira fyrir augað," segir Sigríður Dagbjört. Björg hefur þó litlar áhyggjur af því að fólk muni frekar sækja sýningu Verzlunarskólans. „Mér finnst frekar áhugavert að sjá bæði leikrit og nútímasöngleik, byggða á sama leikverkinu, og ég vona að flestir vilji það líka."

Aldrei áður hefur komið upp sú staða að tveir af stærri menntaskólum landsins taki upp sömu sýninguna. „Þetta er náttúrlega svolítið spes, en vonandi verður þetta okkur báðum til framdráttar. Við ætlum bara að halda okkar striki og láta þetta ekki hafa áhrif á okkur," segir Sigríður Dagbjört.

Orri Huginn Ágústsson fer með leikstjórn Draumsins en það er í höndum Gunnars Helgasonar að leikstýra MR-ingum.

kristjana@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.