Innlent

Úr skotgröfum í samstöðu

ÁRóðursmynd Í umsóknarferlinu sagði Verkamannaflokkurinn meðal annars að fóstureyðingar yrðu lögleiddar við aðild að ESB, en sérstök bókun gegn fóstureyðingum var sett í aðildarsamninginn. Fóstureyðingar eru að öllu leyti eða hluta til bannaðar í þremur ESB-ríkjum. Á Möltu, Írlandi og í Póllandi.Nordicphotos/afp
ÁRóðursmynd Í umsóknarferlinu sagði Verkamannaflokkurinn meðal annars að fóstureyðingar yrðu lögleiddar við aðild að ESB, en sérstök bókun gegn fóstureyðingum var sett í aðildarsamninginn. Fóstureyðingar eru að öllu leyti eða hluta til bannaðar í þremur ESB-ríkjum. Á Möltu, Írlandi og í Póllandi.Nordicphotos/afp
Malta er minnsta ríki ESB með um 410.000 íbúa. Þar urðu hatrömm átök um hvort ganga ætti í sambandið. Klemens Ólafur Þrastarson sá að margt þar minnir á íslenskar aðstæður en annað ekki.

Baráttan með og á móti aðild Möltu að Evrópusambandinu klauf þjóðina í tvær fylkingar, áður en Malta gekk í ESB fyrir sjö árum. Óvíða hefur verið tekist jafn mikið á um þessa ákvörðun og þar, í ríki sem er á stærð við rúman fimmtung Færeyja. Átökin gengu svo langt að þegar nýr meirihluti Verkamannaflokksins náði völdum 1996 dró hann umsókn Maltverja til baka, eða frysti hana.

Fyrir var Malta tvíklofið samfélag um flesta hluti aðra en kaþólska trú, sem nær allir játast. Þar hafa tveir flokkar lengi verið með nær helming atkvæða hvor, fyrrnefndur Verkamannaflokkur og svo Þjóðernisflokkurinn.

Malta er gjarnan sögð á mótum Evrópu, Afríku og Mið-Austurlanda og fékk sjálfstæði frá Bretum 1964. Afstaða flokkanna tveggja til utanríkismála hefur verið ansi ólík. Þegar Þjóðernissinnar voru við völd urðu Maltverjar hluti Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins og helstu skrefin í utanríkismálum voru stigin í vesturátt. Þjóðernisflokkurinn sótti um aðild að ESB 1990.

Verkamannaflokkurinn leit hins vegar til austurs og lagði áherslu á tvíhliða samninga við ESB, án pólitískrar þátttöku. Verkamannaflokkurinn sagðist vilja vinna með sem flestum og lýsti yfir hlutleysi Möltu þegar hann var við völd í kalda stríðinu. Malta átti að vera „Sviss Miðjarðarhafsins“. Flokkurinn bauð sérstaklega upp á aukið samstarf við Kína og Líbíu. Reyndar var Malta í valdatíð Verkamannaflokksins uppnefnd „Kúba Miðjarðarhafsins“.

Þjóðin var því með öllu ósammála um hvar hún stæði í heiminum. Allt þar til Malta gekk í ESB 2004. Eftir það hefur ríkt mikil samstaða um aðild Möltu að ESB.

Flokkarnir keppa nú á öðrum sviðum og formanni Verkamannaflokksins, Joseph Muscat, sem er fyrir löngu yfirlýstur Evrópusinni, er gjarnan núið um nasir að hafa verið andstæðingur aðildar á yngri árum. Honum til ama er við hvert tækifæri rifjuð upp hin eldri utanríkisstefna Verkamannaflokksins og spurt: Hvar værum við í dag ef þessi flokkur hefði fengið að ráða?

AðildarferliðMargt var til fyrirmyndar í umsóknarferli Maltverja, sem var umfangsmeira en yfirstandandi umsóknarferli Íslendinga því Maltverjar voru vitaskuld ekki EES-þjóð þegar þeir sóttu um aðild. Mikið samráð var haft við hagsmunahópa og komið á sérstöku nefndastarfi til að sem flestir tækju þátt. Ein afleiðing þessa, ef marka má skoðanakannanir, er sú að meirihluta Maltverja finnst sem afstaða hans eða „rödd“ skipti máli og heyrist innan ESB, fleirum en hjá ESB-þjóðum allajafna. Þá var mikið rætt opinberlega og í fjölmiðlum um kosti og galla aðildar. Allt þetta gerir það að verkum að Maltverjar, minnsta þjóð ESB, segjast vera ánægðari með fyrirkomulag lýðræðis í ESB en flestar þjóðir.

Ein helstu mótrök aðildarandstæðinga voru þau að sameiginleg löggjöf ESB myndi múlbinda Maltverja og sýna viðkvæmu efnahagslífi lítillar eyju lítið sem ekkert tillit. Þetta myndi þýða „endalok atvinnu“ fyrir Maltverja, því erlendir verkamenn tækju störfin af innfæddum. Þjóðin stóð frammi fyrir „endalokum vefnaðariðnaðar“ og „endalokum frelsis“. ESB-aðild hefði í för með sér of margar reglur og skyldur, íbúðarhúsnæði myndi rjúka upp í verði, skattbyrði yrði meiri og hefðbundnar fuglaveiðar bannaðar. Skipasmíðastöðvum yrði lokað og hefðbundinn sjávarútvegur og landbúnaður liði undir lok. Verkamannaflokkurinn lagði aðild að ESB að jöfnu við að Malta yrði aftur nýlenda.

Allt þetta, ásamt óvinsælum umbótum innanlands sem gerðar voru að kröfu ESB, stuðluðu að því að stjórn Þjóðernissinna féll í miðju aðildarferlinu, 1996. Umsóknin var dregin til baka, sem fyrr segir, en tveimur árum síðar náði Þjóðernisflokkurinn völdum aftur og umsóknarferlið hélt áfram. Fyrir utan efnahagsmál snerist umræðan um menningarlega stöðu Möltu (hvaða heimshluta Maltverjar ættu að tilheyra og hvað það þýddi að vera Maltverji), þjóðaröryggismál og hvernig mætti tryggja að hæfasta unga fólkið færi ekki úr landi.

SamningurinnMalta er talin hafa náð afar góðum samningum. 76 sérlausnir eru í samningnum um frest til aðlögunar eða klæðskerasaumaðar lausnir: endanlegar undanþágur. Maltverjar fengu til að mynda að takmarka fasteignakaup útlendinga og hindra fiskveiðar þeirra innan 25 mílna. Þá fengu þeir fjölda sérlausna í landbúnaði og sérstakan ríkisstuðning við skipaþjónustu. Stjórnvöld máttu og stöðva frjálsa för erlendra verkamanna ef þurfa þætti.

Árið 2002 vildu einungis 38% Maltverja ganga í ESB, samkvæmt skoðanakönnun. Þrátt fyrir það studdu um 53% þeirra aðild Möltu að ESB í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2003.

En þar með var sögunni ekki lokið því Verkamannaflokkurinn hélt óbreyttri stefnu og hótaði að stöðva aðildarferlið, kæmist hann til valda. Það mun hafa verið að beiðni ESB að boðað var til þingkosninga fljótlega eftir aðildaratkvæðagreiðsluna, svo enginn vafi yrði um niðurstöðuna. Verkamannaflokkurinn náði ekki meirihluta í þeim kosningum og aldrei eftir það, nema í kosningum til Evrópuþingsins!

Eftir á að hyggjaDeilt er um áhrif þess að Malta fór klofin í gegnum aðildarviðræður. Sumir fræðimenn telja að Verkamannaflokkurinn hafi með afstöðu sinni neytt þjóðina til að eyða orku sinni í mál sem engu skiptu, þegar hún hefði getað tryggt sér betri samning. Þetta sjónarmið er ríkt innan Verkamannaflokksins sjálfs. Þar er harmað að flokkurinn hafi enga raunverulega aðkomu eða áhrif haft í ferlinu, utan neikvæðs og ómarkviss þrýstings.

Aðrir benda á að sökum takmarkaðs fylgis aðildar hafi ríkisstjórnin þurft að leggja sig sérstaklega fram við að kynna ferlið og áhrif og merkingu aðildarinnar fyrir kjósendum. Þetta hafi aukið pólitískan skilning og stuðning við aðildina.

Enn aðrir benda á að þegar tveir eigi í viðræðum, eins og Malta og ESB, sé einungis samið um hið semjanlega. Þegar samninganefnd Möltu kom að samningaborðinu var henni og fulltrúum ESB ljóst að nefndin hafði afar skilyrt umboð og gat ekki litið fram hjá sjónarmiði stjórnarandstöðunnar. Ef hún ekki næði góðum kjörum fyrir Möltu væri betur heima setið, því samningurinn yrði kolfelldur: Sveigjanleikinn yrði allur að vera ESB-megin borðsins. Því hafi hin mikla andstaða stuðlað að því að þjóðin landaði góðum aðildarsamningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×