Innlent

Hvít jörð á aðfangadagskvöld

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mega Íslendingar búast við hvítri jörð þegar jólapakkarnir eru opnaðir á aðfangadagskvöld.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mega Íslendingar búast við hvítri jörð þegar jólapakkarnir eru opnaðir á aðfangadagskvöld. mynd úr safni
Áhugi Íslendinga um veðrið á aðfangadag hefur alltaf verið mikill enda vilja flestir hafa snjókomu fyrir utan gluggann þegar að jólasteikin er borðuð og jólapakkarnir opnaðir. Vísir sló á þráðinn á Veðurstofu Íslands nú í kvöld og spurði einfaldlega hvort að jólin yrðu hvít eða rauð.

Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að á Þorláksmessu verði suðvestan átt með éljum á suður- og vesturlandi með vægu frosti. Samkvæmt veðurspám mun lægð fara yfir landið á aðfangadag sem setur óvissu í spánna. „Það er útlit að það verði slydda eða rigning um tíma á aðfangadag, en það mun aðeins standa yfir í einhverja klukkutíma á meðan lægðin fer yfir landið," segir Haraldur.

Þegar jólin ganga í garð klukkan 18 á laugardag eru mestar líkur á því að lægðin sé gengin yfir landið og það verði hvít jörð, þrátt fyrir örlitla úrkomu um daginn. „Við gerum ráð fyrir að það verði él á aðfangadagskvöld," segir Haraldur sem bendir á að búast megi við að snjór falli til jarðar síðar um kvöldið.

Á jóladag og annan í jólum má gera ráð fyrir svipuðu veðri og á aðfangadagskvöld. Það er að segja suðvestan átt með éljum.

„Svo er bara að sjá hvort að þetta rætist, lægðin á laugardag setur smá óvissu í þetta, en það er búið að vera alhvítt hér í Reykjavík síðustu daga og við vonum að svo verði yfir jólin líka," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×