Innlent

Ríkissáttasemjari að máli Sólheima

Framkvæmdastjóri Sólheima segir komandi viðræður við Árborg skera úr um getu sveitarfélaga til að annast málefni fatlaðra sem flutt voru til þeirra um áramót.
Framkvæmdastjóri Sólheima segir komandi viðræður við Árborg skera úr um getu sveitarfélaga til að annast málefni fatlaðra sem flutt voru til þeirra um áramót.
„Við vorum sammála um að halda viðræðunum áfram undir handleiðslu ríkissáttasemjara og hann féllst á það,“ segir Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmastjóri Sólheima, um samningaviðræður við sveitar­­félagið Árborg um rekstur stofnunarinnar.

Forsvarsmenn Sólheima eru eins og kunnugt er óánægðir með ákvörðun Alþingis um að flytja málefni fatlaðra frá ríkinu til sveitarfélaga um nýliðin áramót. Þeir telja að sveitarfélög ráði vart við slíkt verkefni. Milli jóla og nýárs var gerður samningur milli Árborgar og Sólheima um reksturinn í janúar til að skapa svigrúm til að leysa málið.

Fyrsti formlegi fundurinn aðilanna hjá ríkissáttasemjara verður á morgun.

„Það hefur verið talað um að vinna þetta mjög hratt og leggja áherslu á að klára þetta í janúar. Það er staðan þar til annað kemur í ljós. Við göngum inn í þetta með von um að málið leysist,“ segir Guðmundur. Hann kveður viðræðurnar nú ákveðinn prófstein á getu sveitarfélaganna í þessum málaflokki.

„Þetta er fyrsta verkefnið sem mun í raun skera um hvort þær yfirlýsingar eru réttar að sveitarfélögin ráði við yfirfærsluna,“ segir framkvæmdastjóri Sólheima.- gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×