Viðskipti erlent

Lánshæfiseinkunn Japan lækkar í fyrsta sinn í níu ár

Hið alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtæki Standard & Poors (S&P) hefur lækkaði lánshæfiseinkunnir japanska ríkisins um eitt þrep fyrir langtímaskuldbindingar, þ.e. úr AA í AA-. Er þetta í fyrsta sinn í níu ár sem fyrirtækið lækkar lánshæfiseinkunnir Japans.

Að sögn fyrirtækisins kemur aðgerðin í kjölfar gríðarlegrar skuldasöfnunar ríkissjóðs þar í landi og telur S&P jafnframt að yfirvöld þar í landi skorti áætlun um það hvernig þau ætli að takast á við vaxandi skuldavanda þjóðarinnar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að ljóst sé að vaxandi skuldasöfnun þróaðra ríkja er að orðið að einu helsta vandamáli þeirra og hefur það oftar en ekki verið meginástæðan að baki þess að lánshæfismat þeirra hefur verið lækkað og/eða skuldatryggingarálag þeirra hækkað.

Sem kunnugt er þá eru mörg nýleg dæmi um þetta, þ.e. að lánshæfismat þróaðra ríkja sé lækkað vegna áhyggja matsfyrirtækja af skuldastöðu þeirra og má hér nefna mat Grikklands, Spánar, Portúgals og Írlands.

Svo virðist sem að þessi aðgerð S&P í gær hafi ekki haft mikil áhrif á mat markaðsaðila um líkur þess að japanska ríkið kæmi til með að lenda í vanskilum eða í greiðsluþroti með skuldbindingar sínar. Þannig stóð skuldatryggingarálag japanska ríkisins til fimm ára í lok gærdagsins samkvæmt gögnum úr Bloomberg-gagnveitunni í 83 punktum (0,83%) og hafði það mjakast lítillega upp á við frá deginum áður en þá stóð það í 80 punktum. Í raun var þróunin á skuldatryggingarálagi þess til eins árs í öfuga átt miðað við sem búast hefði mátt við, þ.e. það lækkaði í 25 punkta úr 29 punktum á sama tíma.

Skuldahlutfall Japanska ríkisins er eitt hið hæsta sem um getur í heiminum um þessar mundir og slær það jafnframt hlutfallinu hér á landi við. Í nýlegri skýrslu efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD sem birt var í nóvember síðastliðnum áætlar stofnunin að skuldir japanska ríkisins hafi samsvarað 198% af vergri landsframleiðslu (VLF) á síðasta ári sem er hið mesta sem um getur á meðal OECD ríkja. OECD áætlar að þetta hlutfall á Íslandi hafi verið um 125% af VLF sem er fjórða hæsta hlutfallið á meðal OECD-ríkja, en hlutfallið á Ítalíu og Grikklandi er aðeins hærra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×