Erlent

Fundu risavaxinn járnloftstein í Mongólíu

Kínverskir vísindamenn hafa fundið það sem gæti verið einn stærsti járnloftsteinn sem hingað til hefur fundist á jörðinni.

Loftsteinninn fannst í 2.900 metra hæð í Altai fjöllunum í Mongólíu sem liggja á mjög einangruðu öræfasvæði milli héraðanna Zingjiang og Uyghur. Hann er talinn allt að 30 tonn að þyngd og því hugsanlega einn stærsti loftsteinn úr járni sem fundist hefur. Sá stærsti sem hingað til er vitað um í Kína er Armanty loftsteinninn sem fannst á sömu slóðum árið 1898 en hann reyndist 28 tonn að þyngd.

Vísindamennirnir þurftu að nota hesta og kameldýr til að komast að þessum loftsteini sem hlotið hefur nafnið Zingjiang loftsteinninn. Sögur um stein með óvenjulegum lit í Altai fjöllunum leiddu til þess að vísindamennirnir könnuðu málið.

Þegar vísindamennirnir loksins fundu steininn komu í ljós merki um að reynt hafi verið að skera í hið glansandi yfirborð hans. Þeir voru því ekki þeir fyrstu sem fundu steininn.

Nákvæm staðsetning á þessum loftsteini hefur ekki verið gerð opinber vegna hættu á þjófnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×