Skoðun

Hvaða framandi lífverur eru umhverfisvandamál á Íslandi? Seinni hluti

Hópur fjórtán vistfræðinga mundar stílvopnið í grein í Fréttablaðinu þann 20. janúar síðastliðinn, undir yfirskriftinni „Ágengar framandi lífverur eru umhverfisvandamál". Helstu rök sem fjórtánmenningarnir færa fyrir nauðsyn á altæku banni, með sértækum eftir á undanþágum, við innflutningi og dreifingu framandi lífvera er annars vegar þeirra eigin túlkun á því hvað felst í aðild Íslands að alþjóðasamningum og hins vegar að þeir sjálfir og að heita má allt „vistfræðasamfélagið" sé sammála þeirri túlkun. Fyrir hvorugri skoðun eru færð viðunandi rök í greininni og heldur ekki í frumvarpstillögunum um breytingar á völdum kafla náttúruverndarlaganna. Hitt þarf hin íslenska þjóð að fá að vita, að í hinum alþjóðlega fræða- og vísindaheimi er mjög að aukast gagnrýni á „innrásarlíffræðinga" meðal vistfræðinga, fyrir skort á gagnrýni, raunprófunum og öðrum viðurkenndum vísindalegum vinnubrögðum. Verulegar efasemdir eru komnar fram um vísindalegar forsendur þeirra staðhæfinga sem hafðar eru uppi og það óljósa orðfæri um þá „gríðarlegu ógn sem líffjölbreytni stafar af framandi ágengum tegundum". Sérstaklega á það við um hlut plantna sem orsök tegundaútrýmingar eða minnkandi líffjölbreytni þótt tilflutningur þekktra afránsdýra sé varhugaverður.

Hvergi í íslenskum rannsóknum hefur heldur komið fram að innflutningur og dreifing á framandi lífverum hafi valdið tjóni á líffræðilegri fjölbreytni hérlendis nema helst sú að minkur hefur breytt varphegðun fugla og hugsanlega haft önnur staðbundin áhrif. Engri plöntutegund hefur verið útrýmt af innfluttum plöntutegundum svo vitað sé og fjölbreytni gróðurríkisins hefur sannanlega aukist þegar talið er í tegundum og fjölbreytileika vistkerfa. Við sjáum merki þess hvar sem við förum um landið okkar. Margar eftirsóknarverðar fuglategundir hafa fundið sér búsvæði og fjöldi nytsamra skordýra einnig. Það kann að vera að menn greini á um útbreiðslu einstakra tegunda á einstökum svæðum – en tjón á eiginlegri líffjölbreytni hefur ekki verið sýnt fram á. Því teljum við óþarfa að setja um slíkt íþyngjandi lög sem leggjast sem lamandi hönd yfir samfélagið en ná samt ekki tilgangi sínum. Vilji fjórtánmenningarnir sannfæra fólk um að fjárhagslegur, heilsufarslegur eða umhverfislegur skaði af einhverjum tilteknum tegundum sé meiri en ágóðinn, þá hafa þeir öll tækifæri til þess. Þeir geta t.d. farið að stunda rannsóknir á áhrifum framandi tegunda hér á landi og þá haft þær af þeim gæðum sem duga til að fá þær birtar í ritrýndum tímaritum. Á slíkar vísindalegar niðurstöður yrði hlustað. Skógargeirinn hefur verið tilbúinn að stuðla að slíkum rannsóknum, m.a. með verkefninu Skógvist sem unnið var af samviskusemi fyrir nokkrum árum og sýndi fram á að líffjölbreytni (tegundafjölbreytni) minnkaði ekki þegar skógar erlendra trjátegunda voru ræktaðir á mólendi og líffjölbreytnin í þeim skógum var síst minni en í skóglendum innlendra tegunda. Enda er talið að skógar heims hýsi um 80% lífbreytileika á landi.

Samkvæmt sáttmálanum um líffræðilega fjölbreytni skipta vernd og sjálfbær nýting líffræðilegrar fjölbreytni miklu máli í tengslum við að mæta fæðu-, heilsufars-, og öðrum þörfum sífellt fleira fólks í heiminum og í þeim tilgangi er mikilvægt að hafa aðgang að og deila bæði erfðaauðlindum og tækni. Samkvæmt þessu eru nytjaplöntur sameiginleg arfleifð alls mannkyns. Innflutningur nytjaplantna er, hefur verið og mun áfram verða til aukinnar hagsældar fyrir íbúa þessa heims og ein helsta leiðin til að fullnægja sívaxandi þörfum íbúa jarðarinnar fyrir endurnýjanlegar auðlindir í heimi vaxandi fólksfjölda. Þetta er inntakið í Rio-samningnum en ógn af völdum framandi lífvera er aukaatriði.

Gagnrýnin hugsun er einnig ein af forsendum framfara og hornsteinn góðs fræðasamfélags. Trúarkennd og villandi samsuða loðinna og þokukenndra hugtaka sem sett er fram af „fræðasamfélagi", að því er virðist í þeim eina tilgangi að valda ruglingi, hafa pólitísk áhrif og láta tilganginn helga meðalið, er ekki líkleg til að auka hróður þess samfélags né bæta orðræðuna í samfélaginu almennt. Við gerum kröfu á hendur þessum félögum okkar í heimi raunvísinda um vísindalega grundaða umræðu og vandaðri vinnubrögð. Vísindaleg niðurstaða verður ekki sönnuð með neinum meirihluta. Til þess að viðunandi sátt náist um niðurstöðu er öllu meira gagn af vönduðum rannsóknum ásamt opinni og hreinskiptinni umræðu meðal fræðimanna og sem víðast í samfélaginu.

Dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson, skóg- og erfðafræðingur, formaður Skógfræðingafélags Íslands; dr. Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna, Skógrækt ríkisins, (SR); dr. Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Garðyrkjufélags Íslands (GÍ); dr. Alexander Robertson, skógfræðingur, prófessor emeritus; Barbara Stanzeit, líffræðingur, fræmeistari GÍ; Björn B. Jónsson, skógfræðingur; framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda (LSE); Brynjólfur Jónsson, skógfræðingur; framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands (SÍ); dr. Dóra Lúðvíksdóttir, læknir; Edda Björnsdóttir, formaður LSE; Einar Gunnarsson, skógfræðingur, SÍ; Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur, varaformaður GÍ; Jón Loftsson, skógfræðingur, skógræktarstjóri, SR; Magnús Gunnarsson, viðskiptafræðingur, formaður SÍ; Ragnhildur Freysteinsdóttir, umhverfisfræðingur, SÍ; Sigríður Hjartar, lyfja- og sagnfræðingur, fv. formaður GÍ; Valborg Einarsdóttir, garðyrkjufræðingur, framkvæmdastjóri, GÍ; dr. Ragnar Árnason, prófessor við Hagfræðideild HÍ.




Skoðun

Sjá meira


×