Viðskipti erlent

Telur evruna lifa af

Evrulöndin munu að öllum líkindum halda myntsamstarfinu gangandi þrátt fyrir erfiðleika í kjölfar fjármálakreppunnar. Ekki er þó útilokað að Grikkland lendi í greiðsluþroti og að einstök ríki lendi í frekari vandræðum.

Þetta segir bandaríski hagfræðiprófessorinn Kenneth Rogoff, fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hefur um skeið varað við fjárhagsvanda evruríkjanna.

Rogoff fjallaði um evruna í alþjóðlegu samhengi og vanda evruríkjanna á fundi norskra samtaka iðnaðarins í Osló í gær.

Í erindi sínu fjallaði hann meðal annars um veika stöðu evrunnar gagnvart Bandaríkjadal og skuldavanda Íra, Portúgala og Spánverja.

Rogoff telur ekki útilokað að löndin lendi í sömu vandræðum og Grikkland þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir annað fjármálahrun. Þetta mun ekki duga til og verða stjórnvöld landanna að endurskipuleggja skuldir sínar, að mati Rogoffs, sem telur evrópskt fjármálakerfi munu komast á réttan kjöl árið 2017.- jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×