Fulltrúar frá Hvatafélaginu Á-vexti eru um þessar mundir að reyna að sannfæra landann um að hægt sé að rækta ávexti eins og epli með góðu móti hér á landi. Þá kemur sér vel að geta bent á Ingibjörgu Eygló Jónsdóttur frá Akranesi en hún er með 35 ára gamalt eplatré í garðinum hjá sér og uppskar 800 epli í fyrra af þessu eina tré.
„Konan sem átti húsið á undan okkur plantaði tveimur eplatrjám, annað drapst nú fljótlega en þetta dafnar svona líka vel,“ segir Ingibjörg. „Ég fór svo að gefa þessu áburð og það var eins og það hefði tekið brjálæðiskast, það rauk bara upp.“
En hvað gerir maður við 800 epli? „Ég gaf mikið af þessu en síðan búta ég mikið af þessu niður og set í frysti, nota það síðan í eplakökur og eplabökur.“ Eplatínslan er í september svo Ingibjörg hefur engan tíma til þess að taka slátur. „Nei, þetta er okkar sláturtíð,“ segir hún kankvís.
Þó að Akranes sé kannski ekki þekkt fyrir veðursæld virðist svæðið heppilegt til eplaræktunar en þar býr einnig Jón Þórir Guðmundsson en hann fær þar um tvö til þrjú hundruð epli á ári.
Hvatafélagið Á-vöxtur hefur undanfarið plantað tveimur trjám í hinum ýmsu almenningsgörðum, meðal annars á Klambratúni í Reykjavík og öðrum opinberum stöðum. Í dag ætlar félagið að planta tveimur trjám í skrúðgarðinum Aragerði í Vogum. Sveitarfélagið þar vill ekki láta sitt eftir liggja svo fordæminu verður fylgt eftir með því að planta tveimur kirsuberjatrjám við sama tækifæri. Vogar eru heldur ekki þekktir fyrir veðursæld en Eirný Vals bæjarstjóri er bjartsýn á framtíð trjánna. „Þau verða þarna í laut og í skjóli stórra trjáa sem plantað var fyrir nær hálfri öld svo ég er viss um að þau eigi eftir að braggast vel hjá okkur,“ segir hún.
Þorvaldur Örn Árnason hvatafélagi segir að ef allt gangi að óskum verði hægt að tína epli af trjánum í Aragerði eftir tvö ár.
jse@frettabladid.is
Innlent