Innlent

Þingmaður Framsóknar vill endurskoðun á lögunum

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar.
Þingmenn fengu ekki réttar upplýsingar við samþykkt á lögum um útreikninga lána í desember síðastliðnum segir Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknar. Hún telur réttast að lögin verði tekin aftur upp á Alþingi.

Eygló hefur gert miklar athugsemdir við samþykkt laganna og furðar sig á því hve óskýr löggjöfin er. Eftir að lögin tóku gildi um áramót fór hún fram á að ráðuneytið myndi senda frá sér skýr dæmi um það hvernig ætti að endurreikna lánin, en því miður hafi það ekki verið reyndin.

"Eins og ég skildi það þá átti ekki að umbuna fyrir þennan ólögmæta gjörning, þannig að það átti ekki að gera ráð fyrir vaxtavöxtum, né dráttarvöxtum, né nokkru vanskilaálagi á greiðslur sem lántakar hefðu aldrei möguleika á að borga."

Þetta hefur hins vegar ekki gengið eftir. Mismunandi aðferðarfræðum sé nú beitt við endurútreikna og að það sé óskýrleiki laganna sem bjóði upp á þá stöðu. Þeir sem brutu lögin til að byrja með ákveði nú hvernig útreikningum lánanna sé háttað. Hún segir langeðlilegast að lögin verði tekin aftur upp á Alþingi og vilji löggjafans skýrður.

Að mati Eyglóar virðist efnahags- og viðskiptaráðherra vera sáttur við hvernig lánveitendur endurreikni lánin og að það sé algjörlega óásættanlegt.

Aðspurð hvað standi í veg fyrir því að lögin verði endurskoðuð á Alþingi segir Eygló. "Það getur verið erfitt að viðurkenna að maður hafi gert mistök, en menn þurfa að kyngja því og horfast í augu við það að þau voru kosin til að gæta almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×